MARMARI
Marmari hefur frá örófi alda verið afar eftirsóttur til bygginga- og höggmyndagerðar og hefur í gegnum tíðina verið tengdur við ríkidæmi og glæsileika. Á Ítalíu hafa til dæmis heilu göturnar verið marmaralagðar og furstar og soldánar til forna byggðu sér gjarnan hallir úr steininum. Marmari finnst víða í heiminum og er í raun myndbreyttur kalksteinn sem myndast neðansjávar við umkristöllun kalkskelja og sjávardýra við mikinn hita og þrýsting. Litafegurð steinsins, sem spannar nánast alla litaflóruna, og hans deiga áferð eiga sinn þátt í vinsældunum en marmarinn þykir afar þægilegur í vinnslu og hentar vel sem gólf- eða veggefni.